Skúli mennski er framsækinn og metnaðarfullur texta og lagahöfundur og flytjandi sem býður uppá sérsniðnar tónlistarlausnir fyrir einstaklinga, hópa, minni og stærri fyrirtæki og félagasamtök. Skúli mennski er einkarekinn í almannaþágu. Kjörorð hans eru frelsi, virðing og góð skemmtun.

Kominn á netið aftur. Bingó!

Skrifað þann 22. september 2014

Það er Skúli mennski sem skrifar. Kominn á netið.


Þakkagjörðarhræringur

Skrifað þann 17. desember 2012

Ég er allt að því hrærður. Blúsinn í fangið er búinn að fá tvo dóma. Fjórar stjörnur af fimm mögulegum í Fréttablaðinu og DV. Ég naut liðsinnis afar vandaðs fólks við gerð plötunnar og við erum búnir að spila nokkra ákaflega vel heppnaða tónleika í kjölfar hennar. Hljómsveitinni kann ég miklar þakkir fyrir. Eins stend ég í þakkarskuld við allt fólkið á bak við tjöldin sem greitt hefur götuna og hjálpað til við að gera þessa blúsplötu mögulega.

Næst á dagskrá er lítið gigg á Kex Hostel. Fimmtudaginn 20. desember kem ég einn fram með kassagítar og tek nokkur vel valin lög.


Blúsinn í Hagkaup

Skrifað þann 17. desember 2012

Draumar mínir eru að rætast einn af öðrum. Á fimmtudaginn spilaði ég á Græna hattinum á Akureyri ásamt Þungri byrði. Byrðin var ívið þyngri en venjulega þar sem Kristinn Gauti komst ekki með en Sigurvald kollegi hans kom í staðinn. Svo sá ég það áðan þegar ég skrapp í Hagkaup að skoða fjöldaframleidd Star Wars leikföng að Blúsinn í fangið er kominn í hillurnar. Húrra sagði ég í hljóði og brosti útað eyrum. Nú er hægt að kaupa diskinn minn allan sólarhringinn.

Þessi Akureyrarferð var annars merkileg fyrir margar sakir. Við skemmtum okkur með stórstjörnum á Götubarnum eftir giggið. Þar var landsliðsmaður í fótbolta, íslenskur glæparappari, nafntoguð barnsmóðir stjörnulögfræðings og flippaðir snjóbrettastrákar. Ég hafði einmitt komið í Séð og heyrt sama dag og mig grunar að svona muni þetta vera um ókomna tíð.

Jæja.


Kaffi, kökur, rokk og ról.

Skrifað þann 8. október 2012

Ásamt félögum mínum í Þungri Byrði mun ég leika blús í tónleikaröðinni Kaffi, kökur, rokk og ról annað kvöld kl 19. Við erum nú þegar búnir að spila okkur saman á hjá Blúsfélagi Reykjavíkur og í lokahófi Langaholti Gistihúss. Platan okkar er á fullu í hljóðblöndun og ég hef það á tilfinningunni að blúsinn eigi ennþá séns í heiminum.


Brot úr ferðasögu

Skrifað þann 5. október 2012

Ég var í Noregi á dögunum. Osló kom mér skemmtilega á óvart. Það kom mér líka skemmtilega á óvart þegar ég sá Þrjár raddir syngja bakraddir hjá einhverri norskri reggíhetju. Mest kom mér þó á óvart að Steini í Hjálmum var að spila á hljómborðið.


Vera

Skrifað þann 20. september 2012

Furðumikið um að vera og gott að vera til.

Mennskur.


Haustblogg

Skrifað þann 27. ágúst 2012

Þetta er búið að vera virkilega fínt sumarblogg en nú er farið að kólna og haustið bankar uppá. Sumri Skúla mennska lauk með yndislegri ferð í góðra vina hóp. Ásamt fríðum flokki lék ég á balli á Gamla bauk og gisti í skútu.

Eftir dásamlega fiskisúpu í Naustinu á Húsavík héldum við svo á Gæruna í Húsavík. Þar hittum við margt frægt tónlistafólk og sáum Dúkkulísurnar syngja Pamelu í Dallas. Sjálf spiluðum við Búgí! af miklum móð og vorum kát.

Á stuðmyndina vantar reyndar Tómas Jónsson sem var að lappa uppá bílinn sinn.

Eftir giggið okkar á Gærunni jókst svo umferðarþunginn á leiðinni til Reykjavíkur til muna.

Að lokum vil ég þakka dyggum sumarlesendum síðunnar og árétta að það verður ekkert slakað á í blogginu þó svo að haustið sé skollið á. Það er nú bara til þess að hleypa lífi í lúkurnar.


Með augum uppvaskarans.

Skrifað þann 12. júlí 2012


10. júlí

Skrifað þann 10. júlí 2012

Var að koma frá Siglufirði. Þar hefur átt sér stað mikil uppbygging í bland við fortíðarþrá. Menningin blómstrar og útkoman er skemmtileg.

Það var meira að segja búið að flytja Allan sportbar á annan og menningalegri stað. Og hann var jafnvel með menningalegri brag. Það ýfði samt upp fortíðarþrána í mér að sjá gamla Allan þar sem ég fór á sjómannadagsball með Johnny King forðum daga.

Svo ég tali nú ekki um þennan bíl hérna. Frá hvaða áratug er hann eiginlega?

En nú tekur alvara lífsins á Ísafirði við.Uppvask í Tjöruhúsinu. Tónleikar í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði og á Talisman á Suðureyri.


Nýr blús í hús!

Skrifað þann 5. júlí 2012

Já næs! Var að klára Grasekkillsblús í G. Hann heitir „Ég er einn“. Ég er samt langt frá því einn. Er á leiðinni til Siglufjarðar með fjölskyldunni. Tom Cruise og Ágúst Bent eru hins vegar einir samkvæmt Dv punkti is. Á Siglufirði ætla ég að borða kótilettur og rjómaís, stara upp í sólina og fara á Allan Sportbar og vita hvort klósettmerkingarnar eru ennþá jafn óræðar og þegar ég var þar síðast.

Góða helgi.